154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:10]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans svar. Já, það þarf að tala miklu meira um lífeyriskerfið. Það þarf líka að velta fyrir sér þeim skerðingum sem þar eru að eiga sér stað. Hér er verið að tala um að það sé verið að hækka persónuafslátt og hækka þetta og hitt og þetta eru hlutir sem hafa verið í deiglunni í talsverðan tíma, stundum hefur persónuafslátturinn verið verðtryggður og stundum ekki og verkalýðshreyfingin hefur verið að djöflast á ríkisstjórninni fyrir að aftengja persónuafslátt frá launabreytingum þannig að í raun og veru er ríkið alltaf að taka talsvert meira til sín. Þannig hefur það líka gerst með skerðingarmörkin. Ég held að frítekjumörk lífeyristekna hafi ekki hækkað síðan 2016. Þá spyr maður: Af hverju eru ekki skerðingarmörk látin fljóta í samræmi við breytingar sem eru að eiga sér stað í samfélaginu? Maður upplifir það þannig að það sé alltaf verið að taka stærri skerf af kökunni inn í ríkissjóð.